
Streita og kulnun - birtingamyndir og bjargráð
Umsjón


Streita og Kulnun-Birtingarmyndir og bjargráð
Staður: Heilsuklasinn, Bíldshöfða 9, 2. hæð, salur 5
Umsjónaraðilar námskeiðs eru: Sigrún Ása Þórðardóttir og Snædís Eva Sigurðardóttir
Um námskeiðið: Streita og kulnun-Birtingarmyndir og bjargráð er hópmeðferð þar sem leiðarljósið er að bæta líðan og auka starfsgetu þátttakenda. Það er gert með því að gera þátttakendum kleift að öðlast skilning á áhrifum langvarandi streituálags á heilsu viðkomandi, auk þess að benda á leiðir til að draga úr hamlandi streitueinkennum. Fjallað verður um ólíkar birtingarmyndir streitu og kulnunar, mismunandi stig streitu og leiðir að betri líðan. Hver og einn þátttakandi kortleggur sín streitueinkenni og streituvalda og gerir áætlun sem miðar að því að draga úr einkennum og bæta líðan til skemmri tíma og draga úr líkum á endurteknum streituvanda í framtíðinni.
Meðferðin hentar einstaklingum sem glíma við afleiðingar langvarandi streituálags í starfi og/eða einkalífi og eru farin að finna fyrir truflandi einkennum á borð við hamlandi orku- og úthaldsleysi, erfiðleikum með einbeitingu og minni, pirringi, svefntruflunum, litlu þoli við áreiti, líkamlegum óþægindum og lágt álagsþol. Þar sem mikil áhersla er lögð á að gera þátttakendum kleift að öðlast eigin sýn og skilning á langvarandi áhrifum streituálags á heilsuna hentar námskeiðið sérstaklega þeim sem eru nýlega dottnir úr vinnu vegna streitutengdrar vanheilsu og eru að stíga sín fyrstu skref í endurhæfingu. Námskeiðið væri þó einnig gagnlegt þeim sem eru lengra komnir í endurhæfingu og eru farnir að huga að endurkomu á vinnumarkaðinn.
Fyrirkomulag: Kennt er í 7 skipti, tvær klukkustundir í senn. Byggt er á fræðslu, verkefnavinnu, umræðum, heimaverkefnum og hugleiðsluæfingum:
- Forviðtal hjá sálfræðingi í upphafi námskeiðs
- Hóptímar í umsjón sálfræðinga og sjúkraþjálfara
- Kennt er vikulega í 6 skipti, 2 klst í senn
- Eftirfylgdartími (tími 7) verður rúmum 2 vikum eftir að námskeiði lýkur
- Lokaviðtal hjá sálfræðingi sem leiðir af sér lokaviðtal til ráðgjafa
Dagskrá:
Hóptímar hjá fagaðilum
● 1) Áhrif langvarandi streituálags á heilsu og líðan I- kortlagning einkenna og streituvalda
● 2) Áhrif langvarandi streituálags á heilsu og líðan II- Hvað er til ráða-leiðir að bættri líðan
● 3) Sjálfsmat og samkennd í eigin garð
● 4) Svefn og svefnráð
● 5) Streita og hreyfing
● 6) Hvernig forðast má að lenda aftur í sama farinu og næstu skref
● 7) Eftirfylgdartími-staðan og stefnan áfram-síðasti tíminn verður á föstudegi, rúmum tveimur vikum eftir að námskeiði Lýkur.
Námskeiðsgögn: Byggt er á fræðslu, verkefnavinnu í tímum og umræðum. Mikil áhersla er lögð á áætlanagerð og heimaverkefni milli tíma. Þátttakendur fá vinnubók í upphafi námskeiðs sem inniheldur ýmsan fróðleik um streitu og kulnun ásamt verkefnablöðum.
Hafa má samband við umsjónaraðila námskeiðsins ef einhverjar spurningar vakna í tengslum við námskeiðið sjálft, eins líka ef þátttakendur þurfa að boða forföll.
Sigrún Ása: Netfang – sigrunasa@klasinn.is
Snædís: Netfang – snaedis@klasinn.is
Einnig má hafa samband við Heilsuklasann, bæði símleiðis (599-1600) eða með tölvupósti (mottaka@klasinn.is).