Hjördís Inga GuðmundsdóttirSérfræðingur í klínískri sálfræði – Heilsuklasinn

Hjördís Inga Guðmundsdóttir
Sérfræðingur í klínískri sálfræði

Hjördís hefur sérhæft sig í einstaklingsmeðferð fullorðinna. Hefur hún unnið umtalsvert með kvíða, þunglyndi, áráttu og þráhyggju og áfallastreitu. Hjördís hefur unnið talsvert með innflytjendum og sjálfboðaliðum og var um nokkurra ára skeið verkefnastjóri áfallahjálpar hjá Rauða krossinum á Íslandi. Frá því að hún hóf störf hefur Hjördís haldið ótal námskeið og fyrirlestra um fjölda viðfangsefna (t.d. almennt HAM námskeið, sálrænn stuðningur, Klókir krakkar, Streitueinkenni og kulnun, ACT, o.s.frv.)

Hjördís hefur lokið sérmenntun í hugrænni atferlismeðferð, ACT (acceptance and commitment therapy) og hugrænni úrvinnslumeðferð.

Hjördís lauk B.Sc. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2009, diploma í Alþjóða samskiptum frá Háskóla Íslands árið 2009 og MSc í sálfræði frá Háskólanum í Árósum árið 2012. Árið 2019 lauk hún svo tveggja ára sérnámi í Hugrænni atferlismeðferð og 2020 sérnámi í Acceptance and commitment therapy. Árið 2021 hlaut Hjördís svo titilinn Sérfræðingur í klínískri sálfræði fullorðinna frá Landlækni.

Hjördís var í starfsnámi á Reykjalundi árið 2011. Hún vann um stund hjá Fangelsismálastofnun ríkisins áður en hún hóf störf sem sálfræðingur og verkefnisstjóri áfallahjálpar hjá Rauða Krossinum á Íslandi. Hún starfaði svo við greiningar hjá fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar í tæp tvö ár áður en hún hóf störf sem klínískur sálfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Sólvangi. Samhliða þessum störfum síðastliðin 12 ár hefur Hjördís rekið sína eigin stofu og árið 2022 færði hún sig nær alfarið yfir í stofureksturinn.

Samhliða stofurekstrinum undanfarin 2 ár hefur Hjördís unnið með hælisleitendum hjá Heilbrigðisskoðun innflytjenda og kennt ACT námskeiðið sitt Lifðu í sátt hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.