Léttara Líf er grunnnámskeið í heilsurækt, sérstaklega ætlað fólki sem lifir með offitu og fylgikvillum þess. Megináhersla er á reglubundna líkamsrækt undir handleiðslu íþróttafræðings, auk fræðslufyrirlestra hjá innkirtlalækni og næringarfræðingi. Námskeiðið er opið öllum, hvort sem það er sótt eitt og sér eða samhliða öðrum meðferðum, svo sem meðferð með þyngdarstjórnunarlyfjum (t.d. Wegovy eða Ozempic) eða eftir skurðaðgerð vegna offitu.
Með því að sameina reglulega hreyfingu og fræðslu við aðrar meðferðir er lagður traustur grunnur að bættri heilsu og auknum lífsgæðum til lengri tíma. Námskeiðið stendur yfir í fjóra mánuði og markmiðið er að leggja fystu drög að heilsusamlegum lífsstíl til frambúðar. Mikilvægt er að líta á heilsurækt sem langvarandi verkefni en ekki einungis skammtímalausn.
Innifalið í námskeiðinu
Námskeiðið varir í fjóra mánuði og skiptist í 13 vikur í lokuðum hópi og 4 vikur í framhaldshópi. Á fyrstu þremur mánuðunum er lagður traustur grunnur að reglulegri hreyfingu, með áherslu á rétta líkamsbeitingu og stigvaxandi æfingaálag sem eykst samhliða auknum styrk og bættu þoli. Auk þess fara fram fjórar fræðslur sem styðja við þátttakendur í að tileinka sér heilsusamlegan lífsstíl. Í síðasta mánuðinum velja iðkendur síðan framhaldshóp sem hentar þeirra áherslum og markmiðum.
Líkamsræktarhluti námskeiðsins er kenndur mánudaga, miðvikudaga og föstudaga:
- Mánudaga og miðvikudaga kl 18:30-19:20
- Föstudaga kl 16:30-17:20
Tímarnir fara fram í lokuðum sal en einnig er kennd notkun æfingartækja í tækjasal. Fullur aðgangur að tækjasal Heilsuklasans er innifalinn, og kennslan miðar að því að þáttakendur læri á tækin og búnaðinn, svo þeir geti mætt á eigin vegum ef vilji er fyrir hendi. Fyrstu vikurnar er þó mælt með að einbeita sér að mæta í sem flesta tíma og líta á frekari mætingu í ræktina sem viðbót.
Fræðsluhluti námskeiðsins felur í sér fjóra fyrirlestra, tveir hjá innkirtlalækni og tveir hjá næringarfræðingi. Hver fyrirlestur tekur um klukkustund og hefst um hálftíma áður en líkamsræktartíminn byrjar, svo auðvelt er að mæta bein af fyrirlestri í ræktina. Fyrirlestrarnir skipta miklu máli og við hvetjum alla til að sækja þá.
Fyrirlestrarnir eru á eftirfarandi mánudögum eins og hér segir:
- 3. febrúar kl 17:00 (Vika 2) – “Fjárfesting í góðri heilsu – almennt um offitu”, Sigríður Björnsdóttir, innkirtla- og efnaskiptalæknir
- 24. febrúar kl 17:00 (Vika 5) – “Mataræðið sem ein heild”, Heiðdís Snorradóttir, næringarfræðingur
- 17. mars kl 17:00 (Vika 8) – “Fjárfesting í góðri heilsu – hvað get ég gert sjálf/ur”, Sigríður Björnsdóttir, innkirtla- og efnaskiptalæknir
- 7. apríl kl 17:00 (Vika 11) – “Heilbrigt samband við mat”, Heiðdís Snorradóttir, næringarfræðingur
Upphafs- og lokaviðtal
Til viðbótar við reglulega líkamsrækt og fræðslu er boðið upp á 30 min upphafsviðtal við íþróttafræðing námskeiðsins, þar sem gerð verður líkamsmæling (sjá nánar hér) og umræða um heilsu iðkanda. Eftir fyrstu þrjá mánuðina er sambærilegt lokaviðtal innifalið, með líkamsmælingu, áður en fjórði og síðasta mánuðurinn hefst.
Fagaðilar námskeiðsins
- Saadia Auður Dhour – Íþróttafræðingur með margra ára reynslu. Leggur áherslu á jákvæða upplifun af heilsurækt, óháð getu eða markmiðum.
- Sigríður Björnsdóttir – Innkirtla- og efnaskiptalæknir. Vann á Karólínska Sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í 15 ár. Hún hefur víðtæka reynslu, m.a. sem sérfræðingur í offitu og beinþynningu. Unnið bæði í klínískri heilbrigðisþjónustu sem og starfi sem sérfræðingur í beinþynningu og offitu.
- Heiðdís Snorradóttir – Næringarfræðingur með áherslu á lýðheilsu, þar með talið langvinna sjúkdóma. Hefur unnið klínískt starf síðastliðin 4 ár og hefur veitt ráðgjöf í sambandi við næringu bæði til einstaklinga og hópa.
- Lars Óli Jessen – Lýðheilsufræðingur og fagstjóri heilsuræktar Heilsuklasans. Brennur fyrir að bjóða upp á líkams- og heilsurækt fyrir alla, óháð heilsu eða stöðu í samfélaginu.
Verð og næstu námskeið
Verð er 34.900 kr á mánuði, með skuldbindingu í 4 mánuði, eða samtals 139.600 kr.
Næsta námskeið hefst mánudaginn 27. janúar kl 18:30. Skráning fer fram í móttöku Heilsuklasans eða með tölvupósti á netfangið mottaka@klasinn.is.