Sterkari bein – Heilsuklasinn

Sterkari bein

Sterkari Bein er grunnnámskeið í heilsurækt, sérsniðið að fólki með beinþynningu eða minnkaðan beinmassa. Megináherslan er á reglulega líkamsrækt undir handleiðslu íþróttafræðings, auk fyrirlestra hjá næringarfræðingi, innkirtlalækni og íþróttafræðingi. Með reglulegri hreyfingu og fræðslu frá sérfræðingum skapast traustur grunnur að bættri heilsu og lífsgæðum til lengri tíma. Námskeiðið varir í fjóra mánuði og er hugsað sem upphaf að heilsusamlegum lífstíl til frambúðar.

Innifalið í námskeiðinu
Námskeiðið varir í fjóra mánuði: 13 vikur í lokuðum hópi og 4 vikur í framhaldshópi. Á fyrstu þremur mánuðum er lögð áhersla á reglulega hreyfingu, rétta líkamsbeitingu og stigvaxandi æfingaálag samhliða auknum styrk og þoli. Á fyrstu 3 mánuðum fara einnig fram fjórar fræðslur og því er vænst til þess að iðkendur séu tilbúnir til að taka næsta skref á síðasta mánuði námskeiðsins, þar sem iðkendum býðst til að velja á milli ýmissa framhaldshópa í líkamsrækt eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Líkamsræktarhluti námskeiðsins fer fram alla þriðjudaga og fimmtudaga kl. 13:00–13:50. Lögð er rík áhersla á styrktarþjálfun, þar sem rannsóknir sýna að slík þjálfun er talin heppilegust til að lágmarka líkur á beinbroti. Einnig er unnið markvisst að jafnvægi, liðleika og þoli. Flestir tímar fara fram í lokuðum sal, en einnig er kennd notkun tækja í tækjasal. Fullur aðgangur að tækjasal Heilsuklasans er innifalinn, þannig að þátttakendur geti æft á eigin vegum ef vilji er fyrir hendi. Fyrstu vikurnar er mælt með að mæta í sem flesta tíma og líta á annað sem viðbót.

Fræðsluhlutinn er í höndum þriggja sérfræðinga, sem halda fjóra fyrirlestra: Tvo hjá næringarfræðingi, einn hjá innkirtlalækni og einn hjá íþróttafræðingi. Hver fyrirlestur tekur um klukkustund og fer fram strax eftir líkamsræktartímann. Þessir fyrirlestrar skipta miklu máli, og við hvetjum alla til að mæta.

Fyrirlestrarnir eru á eftirfarandi fimmtudögum eins og hér segir:

  • 6. febrúar kl 14:00 (Vika 2) – “Komum í veg fyrir beinbrot”, Sigríður Björnsdóttir, innkirtla- og efnaskiptalæknir
  • 27. febrúar kl 14:00 (Vika 5) – “Næring og orkan í matnum”, Heiðdís Snorradóttir, næringarfræðingur
  • 20. mars kl 14:00 (Vika 8) – “Fjárfesting í góðri heilsu – hvað get ég gert sjálf/ur”, Lars Óli Jessen, íþróttafræðingur
  • 10. apríl kl 14:00 (Vika 11) – “Næring og beinheilsa – hvað spilar saman?”, Heiðdís Snorradóttir, næringarfræðingur

Upphafs- og lokaviðtal
Til viðbótar við reglulega líkamsrækt og fræðslu er boðið upp á 30 min upphafsviðtal við íþróttafræðing námskeiðsins, þar sem gerð verður líkamsmæling (sjá nánar hér) og umræða um heilsu iðkanda. Eftir fyrstu þrjá mánuðina er sambærilegt lokaviðtal innifalið, með líkamsmælingu, áður en fjórði og síðasta mánuðurinn hefst.

Fagaðilar námskeiðsins

  • Elín Huld Sigurðardóttir – Íþróttafræðingur sem leggur áherslu á jákvæða upplifun af heilsurækt, óháð getu eða markmiðum.
  • Sigríður Björnsdóttir – Innkirtla- og efnaskiptalæknir. Vann á Karólínska Sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í 15 ár. Hún hefur víðtæka reynslu, m.a. sem sérfræðingur í offitu og beinþynningu. Unnið bæði í klínískri heilbrigðisþjónustu sem og starfi sem sérfræðingur í beinþynningu og offitu.
  • Heiðdís Snorradóttir – Næringarfræðingur með áherslu á lýðheilsu, þar með talið langvinna sjúkdóma. Hefur unnið klínískt starf síðastliðin 4 ár og hefur veitt ráðgjöf í sambandi við næringu bæði til einstaklinga og hópa.
  • Lars Óli Jessen – Íþróttafræðingur, lýðheilsufræðingur og fagstjóri heilsuræktar Heilsuklasans. Brennur fyrir að bjóða upp á líkams- og heilsurækt fyrir alla, óháð heilsu eða stöðu í samfélaginu.

Verð og næstu námskeið
Verð er 24.900 kr á mánuði, með skuldbindingu í 4 mánuði, eða samtals 99.600 kr.
Næsta námskeið hefst þriðjudaginn 28. janúar kl 13:00. Skráning fer fram í móttöku Heilsuklasans eða með tölvupósti á mottaka@klasinn.is.